Ekta íslensk kjötsúpa


Kjötsúpan hefur ætíð verið mín uppáhalds súpa, enda fædd og uppalin á Íslandi. Það er svo frábært að krakkar enn í dag kunna að meta íslenska kjötsúpu og hefur þessi þjóðarmatur elst vel með kynslóðunum. Þetta var í fyrsta skipti í gær sem ég gerði kjötsúpu ein frá grunni en það er einmitt markmið mitt m.a. með þessu bloggi, að brjóta upp þægindamúrinn sem maður á til að mynda sér þegar kemur að matargerð, prófa nýjar uppskriftir og láta vaða.
Fyrir þessa uppskrift eins og flestar aðrar matarmiklar súpur er gott að hafa stóran pott sem tekur 3.5 L. Eins og er umtalað þá er það alveg satt að súpur eru betri daginn eftir. Hinsvegar er þessi kjötsúpa alveg æðislega nærandi og hlýjar manni á ljúfan hátt á þessum köldu haustmánuðum sem hafa gengið í garð. 

Uppskrift:
  • 3 L vatn
  • 2 kg lambasúpukjöt
  • 2 msk salt
  • ögn af pipar
  • 8 kartöflur
  • 8 gulrætur
  • 2 rófur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 gulur laukur
  • ½ hvítkálshaus

Aðferð: 
  1. Setjið vatnið í pottinn.
  2. Skolið af kjötinu og bætið því við í pottinn ásamt kryddum.
  3. Kveikið undir pottinum og látið suðuna koma upp.
  4. Takið froðuna sem myndast efst við suðu með gataspaða jafn óðum.
  5. Sjóðið í 45 mín.
  6. Skolið rótargrænmetið (rófurnar, gulræturnar og kartöflurnar), burstið með grænmetisbursta ef þarf.
  7. Skerið niður grænmetið. Gott er að hafa í huga að skera í hæfilega munnbitastærð.
  8. Bætið við öllu grænmetinu.
  9. Sjóðið í 20 mín til viðbótar.
  10. Takið kjötbitana uppúr einn í einu og skerið af þeim sinar og fjarlægið bein.
  11. Skerið svo kjötið í bita og látið aftur ofaní súpuna.
    

     


Verði ykkur að góðu!