Ég rakst á þessa uppskrift fyrir löngu síðan, skráði hana hjá mér en man því miður ekki hvaðan ég fékk hana. Hún var hinsvegar í amerískum mælieiningum svo ég yfirfærði það í alþjóðlegar mælieiningar svo auðveldara er að fylgja henni eftir.
Það sem var skemmtilegt við þessa gulrótarköku var hvað aðferðin er ólík flestum öðrum eins og hvernig gulræturnar fara í blandarann og þeytast þannig með eggjunum og olíunni í nokkurskonar sjeik. Svo það sem virðist skrítið, en þá er þessi gulrótarkaka ekki með hvítu kremi heldur súkkulaðikremi. Hún getur gabbað suma og komið á óvart þegar í hana er skorið því margir vilja halda að ef það er súkkulaðikrem ofaná þá er þetta súkkulaðikaka.
Kakan fékk frábærar viðtökur í afmæli þó hún hafði komið sumum á óvart þegar kom í ljós að hún var ekki súkkulaðikaka. Hún væri alveg frábær með vanilluís.
Uppskrift
- 3 miðlungs gulrætur eða 6 litlar íslenskar
- 3 egg
- 175 ml matarolía
- 4.7 dl hveiti
- 3.5 dl sykur
- 1 msk lyftiduft
- 2.5 dl sykur
- 2.5 dl kakó
- 60 ml mjólk/haframjólk
- 60 g smjör/smjörlíki
- Hitið ofninn í 175°C og blástur
- Hreinsið gulræturnar, skerið í bita og setjið í blandarann,
- Brjótið eggin og bætið þeim ásamt olíunni í blandarann og blandið í 5 mínútur,
- Setjið þurrefnin saman í skál, hveitið, sykurinn og lyftidufið og hrærið saman,
- Hellið blöndunni úr blandaranum í skálina með þurrefnunum og hrærið saman,
- Smyrjið kökuform og dreifið hveiti ofan á smjörið,
- Hellið deiginu í kökuformið,
- Látið bakast í ofninum í 40 mínútur,
- Setjið hráefni kremsins í pott og blandið saman á miðlungshita,
- Takið kökuna út úr ofninum og úr forminu sínu og leyfið henni að kólna á grind,
- Setjið kökuna á disk og dreifið kreminu á,
- Skreytið af vild, eins og td með kókosmjöl eða möndluflögum.