Breskar skonsur

 

Í verklegri kennslu við Heilsueflingu og Heimilisfræði fór kennari okkar með okkur í gegnum gerð á Breskum skonsum. Ég gerði mínar mjólkurlausar með þá smjörlíki í stað fyrir smjör og sojajógúrt í stað súrmjólkur. Ferlið fór allt saman vel þrátt fyrir það að ekki var til nóg hvítt hveiti hjá mér og varð ég að grípa í nokkra dl af heilhveiti, en útkoman var þrátt fyrir það alveg glæsileg. Hægt var að velja hvort maður vildi gera skonsurnar með osti eða með sykri, eða hverju sem manni langaði að bragðbæta þær með. Ég kaus að nota sykur í þetta skiptið og soldin kanil. Eldhúsið ylmaði dásamlega og allir heima hlökkuðu til þess að fá að smakka það sem var að bakast í ofninum sem lyktaði svona vel. Þegar skonsurnar komu út voru þær svo glasandi og rjúkandi að allir fengu vatn í munninn. Þegar það var loksins smakkað á þeim eftir kælingu, var ekki aftur snúið. Þessar skonsur verða klárlega endurteknar á þessu heimili og ég held ég haldi mig við það að blanda saman hvítu- og heilhveiti, því þær eru alveg svei mér vinsælar þrátt fyrir að vera aðeins hollari en ætlast var til.

Uppskrift:

  • 500 g/8,5 dl hveiti
  • 2 tsk matarsódi
  • 4 tsk vínsteinslyftiduft
  • ½ tsk salt
  • 125 g kalt smjör/smjörlíki
  • 2 msk sykur (má sleppa)
  • 1 egg
  • 275 ml súrmjólk/sojajógúrt

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 220°C.
  2. Sigtið saman í stóra skál hveiti, matarsóda, vínsteinslyftidufti og salti. 
  3. Skerið smjörið í litla bita og myljið síðan saman við hveitið. Hrærið sykurinn saman við.
  4. Þeytið egg og súrmjólk vel saman. Geymið örlítið af blöndunni til að pensla með. Setjið vökvann út í hveitiblönduna og hrærið létt saman. 
  5. Setjið deigið á hveitistráð borð og hnoðið létt saman. Passið að ofhnoða ekki, deigið á aðeins að bindast saman. 
  6. Fletjið út ferhyrning með höndunum eða kökukefli, hafið þykktina um 2 cm. 
  7. Skerið deigið í 12 litla ferhyrninga eða stingið það út með stungumóti. Setjið á pappírsklædda bökunarplötu og penslið yfirborðið með restinni af eggja/súrmjólkurblöndunni. 
  8. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til skonsurnar eru gylltar að ofan.


Tilbrigði:

  • Kanill: bætið 2 tsk af kanil við hveitið.
  • Appelsína: bætið fín rifnum berki af einni appelsínu við hveitið.
  • Súkkulaðibitar: bætið 100 g af dökkum eða mjólkur súkkulaðibitum saman við þurrefnin áður en vökvanum er bætt út  í.
  • Rúsínur: bætið 100g af rúsínum saman við þurrefnin áður en vökvanum er bætt út  í. Einnig er gott að nota þurrkuð trönuber eða þurrkuð bláber.
  • Rifinn ostur: bætið 1-2 dl af rifnum cheddar osti saman við þurrefnin áður en vökvanum er bætt út  í.


Uppskrift er frá kennara: Ragnheiður Júníusdóttir, í áfanganum HHE101 Inngangur að heilsueflingu og heimilisfræði.